Skaftafell

Skaftafell er ein af fegurstu náttúruperlum Íslands en þarna mæta gróðurvinjar eyðisöndum og hvítu jökulhvelinu. Árið 1967 var Skaftafell formlega gert að þjóðgarði og tilheyrir það í dag stærsta þjóðgarði Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarði.

Í Skaftafelli hefur umhverfið mótast af eldgosum, jöklum og vötnum og í landinu hafa skapast einstakar jarðmyndanir. Svæðið er rómað fyrir veðurblíðu en veðursæld er mikil í skjóli Öræfajökuls og gróðurfar er fjölbreytt. Neðanverðar hlíðarnar eru þaktar birkiskógi, sums staðar vex reyniviður innan um og botngróður er gróskumikill. Þarna má finna um 250 tegundir háplantna og á svæðinu verpa um 30 mismunandi tegundir fugla.

Úrval gönguleiða er að finna í Skaftafelli og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Léttari og styttri leiðir eru t.d að Svartafossi og Skaftafellsjökli en lengri og meira krefjandi leiðir eru inn í Morsárdal, í Bæjarstaðarskóg, Kjós eða á Kristínartinda.

Í Skaftafellsstofu er sögð saga elds og íss og hvernig hin sterku náttúruöfl hafa tekist á og mótað umgjörð svæðisins. Sagt er frá menningu sem hefur dafnað í skjóli jökulsins og lífi fólks þar sem eldgos og jökulhlaup hafa sett mark sitt á daglegt líf. Einnig er þarna verslun með bækur, póstkort og minjagripi.

Náttúrufegurð, góð veðurskilyrði og úrval gönguleiða gera Skaftafell að kjöráfangastað þeirra sem vilja njóta útivistar í íslenskri náttúru.

Vatnajökulsþjóðgarður
Svartifoss í Skaftafelli
Skaftafell
Skaftafellsjökull

Vegalengd

Vegalengd á milli Skaftafells og Lækjarhúsa

Frá Nónhamri að Skaftafelli eru 20 kílómetrar.