Jökulsárlón

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er einn þekktasti og vinsælasti ferðamannastaður Íslands. Þegar komið er að lóninu er það eins og að stíga inn í töfraveröld því þarna er afar stórfenglegt um að litast. Ísjakar sem brotnað hafa af Breiðamerkurjökli fljóta um á lóninu og fylgja þar vindum og straumum. Eftir því sem utar dregur grynnist lónið og ná þar stærstu jakarnir til botns. Smærri ísjakar berast hins vegar til sjávar og hverfa þar í öldurnar. Þessa jaka fægir sjórinn og skolar þeim síðan aftur á land þar sem þeir leysast upp í svörtum fjörusandinum.

Jökulsárlón er dýpsta vatn á Íslandi en inn við jökulinn mælist dýpið 260 metrar. Lónið tók að myndast í kringum 1934 eftir að Breiðamerkurjökull fór að hopa en síðan þá hefur það stækkað jafn og þétt. Árið 1975 var stærð lónsins um 8 ferkílómetrar en í dag er það um 22 ferkílómetrar og fer sífellt stækkandi.

Í lóninu gætir sjávarfalla en á flóði flæðir sjór inn í lónið og er það því blanda af ferskvatni og sjó. Lax, loðna og síld ganga inn í lónið og selurinn eltir ætið. Á sumrin má oft sjá forvitna seli stinga upp hausnum og þegar lónið frýs á veturna liggja þeir gjarnan tugum saman á ísbreiðunni. Talsvert fuglalíf er við lónið en þarna er til að mynda mikið kríuvarp. Þá er algengt að sjá æðarfugl synda á milli ísjaka og skúmurinn heldur til á sandinum.

Jökulsárlón er í alfaraleið við þjóðveg 1 og því aðgengilegt öllum. Tilvalið er að bregða sér í gönguferð meðfram lóninu og um fjöruna en þarna eru einstakir möguleikar til myndatöku. Yfir sumartímann er boðið uppá bátsferðir um lónið og einnig er lítil kaffitería starfrækt á svæðinu.

Ísjakar á Jökulsárlóni
Sólsetur við Jökulsárlón
Ísjaki á Jökulsárlóni
Selur á Jökulsárlóni

Vegalengd

Vegalengd á milli Jökulsárlóns og Lækjarhúsa

Frá Nónhamri að Jökulsárlóni eru 37 kílómetrar.