Ingólfshöfði

Ingólfshöfði er klettahöfði sem rís 76 metra upp úr flæðamálinu suður af Öræfajökli. Sá hluti höfðans sem snýr að sjó er hömrum girtur en sandalda tengir hann við land. Þarna eru jafnt græn og grösug svæði sem urð og grjót en eystri hluti höfðans kallast Grashöfði og sá vestri Grjóthöfði. Mikið fuglalíf er í höfðanum og eru hamrarnir þéttsetnir fugli á sumrin. Lundinn er einkennandi en þarna má einnig sjá mikið af langvíu, fýl, álku og skúm ásamt fleiri tegundum.

Ingólfshöfði er nefndur eftir Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanni Íslands, en hann er sagður hafa dvalið í höfðanum sinn fyrsta vetur á Íslandi. Árið 1974 var minnisvarði um dvöl Ingólfs reistur í höfðanum og við sama tilefni var Ingólfshöfði friðlýstur.

Leiðin út í Ingólfshöfða getur verið varasöm vegna sandbleytu og er hún einungis fær torfærubílum og dráttarvélum. Ferðamenn eru hvattir til að aka ekki út í höfðann á eigin bílum, heldur nýta sér ferðir Öræfaferða.

Á leið út í Ingólfshöfða
Ingólfshöfði
Friðlandið Ingólfshöfði
Lundi í Ingólfshöfða

Vegalengd

Vegalengd á milli Ingólfshöfða og Lækjarhúsa

Ferð út í Ingólfshöfða hefst á Hofsnesi. Frá Nónhamri að Hofsnesi eru 4,7 kílómetrar.